Að skerpa fókus

Líklega hugsa margir lesendur þessa pistils sem svo, að engin sérstök þörf hafi verið fyrir fleiri orð sem séu innblásin af eða tengist kófinu. Og það var svo sem ekki ætlunin að beina sjónum mínum að þessari árans veiru sem slíkri. Læt nægja að minna okkur öll á orð Harðar Torfa sem sagði; „Þér veitist ekki allt sem þú vilt, enda viltu ekki allt sem þú færð“.


En þó ekki sé ætlunin hér að fjalla um veiruna, er hvati þessara skrifa engu að síður tengdur tilvist hennar. Þær þrengingar sem faraldurinn hefur leitt yfir okkur sem þjóð, fyrst og fremst sem heilbrigðisvanda en í vaxandi mæli vanda atvinnulífsins, leiddi huga minn að efni pistilsins þ.e. mikilvægi þess að hafa skarpan fókus.


Gríski skipakóngurinn Aristotle Onassis sagði;„ Það er á myrkustu stundum okkar sem við þurfum að fókusera á að sjá ljósið“. Það má með sanni yfirfæra þá skynsemi bæði á baráttuna sem beinist að því að glíma við veiruna, sem og þýðingu fyrir atvinnulífið. Mikilvægi þess að skerpa fókus sem aldrei fyrr á þessum viðsjárverðu tímum, tengist að mínu mati þremur lykilspurningum sem stjórnendur þurfa að spyrja sig að.


Sú fyrsta er þessi; Eru strategískar áherslur fyrirtækisins þær sem þær ættu að vera? Þegar þrengir að á markaði og samdráttur verður í eftirspurn, þá er aldrei eins mikilvægt að fyrirtæki einbeiti sér að því sem skiptir mestu máli. Að kröftum sé ekki eytt í að sinna mörgu, heldur ákveðið hvert eigi að beina orku og athygli. Og hvað eigi að láta eiga sig og mögulega hætta við eða setja í bið. Í anda þeirrar hugsunar að fókus snúist ekki síður um að ákveða hvað eigi ekki að gera. Þetta getur birst í að fyrirtækið einbeiti sér að færri mörkuðum, færri markhópum, eða færri vörum, þjónustu og lausnum. Allt með það í huga að skerpa strategískan fókus á tímum þegar að mistök eru dýrkeypt og ótækt er að dreifa kröftum.


Spurning númer tvö er þessi; Er skipulag fyrirtækisins það rétta og í takti við þá strategíu sem fylgja á? Mikilvægt er hér að leggja áherslu á tenginguna við skarpar strategískar áherslur, enda skipulagið aðeins verkfæri til að ná markmiðum tengdum stefnu og framtíðarsýn. Hér skiptir máli að skoða t.d. hvort að einingar í skipuriti séu með skýrt hlutverk og ekki sé til staðar skörun eða grá svæði sem draga út slagkrafti almennt. Reyna að einfalda alla ferla og skera í burtu óþarfa flækjur og vesen, sem tekur tíma og kostar peninga. Með öðrum orðum; styrkja fókus í skipulagi á það sem virkar best.


Þriðja spurningin sem stjórnendur eiga að rýna í er síðan þessi; Erum við með öflugasta fólkið með okkur í baráttunni? Að sjálfsögðu eru stjórnendur almennt meðvitaðir um þýðingu þess að vera með besta fólkið í vinnu. Einstaklinga sem skilja strategískar áherslur fyrirtækisins, eru sammála þeim í hjarta sér, og vita hvaða hlutverki þeir gegna sem hluti af liðinu. En eðlilega er það stundum svo að það eru ekki allir í landsliðsklassa og sú staða kann að vera þolanleg þegar ytri aðstæður eru jákvæðar og fyrirtækið ekki eins viðkvæmt fyrir því að hafa „farþega“ í starfsmannahópnum. En á Íslandi í dag á tímum Covid hefur ekkert fyrirtæki efni á því að vera ekki viss um að hafa þann hóp starfsfólks sem kemur fyrirtækinu í gegnu skaflinn.


Skilaboðin eru því þessi; ef einhvern tímann hefur verið skynsamlegt og í raun bráðnauðsynlegt að skerpa fókus, þá er það núna. Að fyrirtæki einbeiti sér að því sem mestu máli skiptir út á markaðnum, geri það á eins skilvirkan og hagkvæman hátt og unnt er, með starfsfólki sem leggur sig fram um að halda sjó og komast upp úr þeim öldudal sem atvinnulífið er i. Vissulega eru alls konar utanaðkomandi aðstæður sem einkum nú vinna gegn því að mörg fyrirtæki nái árangri, en þess heldur er mikilvægt að skerpa fókus á stefnu, skipulag og starfsfólk.

hafa samband