Einföldun, þröngsýni, og sérfræðiþekking

Í flóknum heimi nútímasamfélags er á margan hátt skiljanlegt að við leitum einfaldra skýringa. Við viljum átta okkur á aðstæðum, greiða úr flækju, finna hinn rauða þráð og komast að kjarna málsins. Þess vegna líður flestum okkar vel þegar það tekst; þegar við þykjumst sjá hvernig er í pottinn búið og að skýringar séu fullnægjandi.


Vandinn er hins vegar sá, að heimurinn er og verður flókinn. Og það er mikilvægt fyrir alla – ekki síst stjórnendur sem þurfa að taka ákvörðun – að viðurkenna og vinna út frá þeirri staðreynd. Láta ekki þægindin við einföldun veruleikans stýra ákvörðunum, heldur leita leiða til að sjá heildarmyndina. Gunnar Dal heimspekingur og skáld sagði; „Til að skilja hið einstaka, þarf að þekkja þá heild sem það er brot af“. Í þeim orðum felst sannleikur. Þau orð leggja áherslu á að átta sig á stóru myndinni og orsakasambandi, og láta ekki þægindin við einfalda heimsmynd glepja sér sýn. Því það er í raun ekkert annað en þröngsýni; þröng og takmörkuð sýn á stöðu og staðreyndir.


Við sjáum því miður mörg dæmi um einfaldar skýringar á flóknum málum. Það er til að mynda einföldun og þröngsýni að halda því fram að frjáls markaður leysi öll vandamál í samfélaginu og ríkisafskipti séu rót allra vandræða. Á sama hátt og það er einföldun og þröngsýni að halda því fram að innflytjendur leiði til vaxandi tíðni glæpa og vanda í samfélaginu. Hvorutveggja er flóknari en svo.


Að vera með eða á móti einhverri skoðun eða afstöðu, getur þýtt að einstaklingur „sér ekki“ upplýsingar sem ganga gegn fyrirfram mótaðri skoðun. Stundum er það ómeðvitað, en gegn slíku þarf að sporna. Ekki síst þurfa stjórnendur að leita meðvitað að ólíkum sjónarmiðum og upplýsingum sem varpa skýrara ljósi á málefnið. Ekki síst ef í þeim felast upplýsingar sem „passa ekki inn“ í þá skoðun sem mótast hefur. Þetta þýðir að það skiptir miklu máli að vera meðvitaður um hættuna sem felst í einföldun og þröngsýni. Það er krítískt að horfa á stöðuna frá öllum sjónarhornum, og leita gagngert að upplýsingum og skoðunum sem varpa nýju ljósi á umræðuna. Gera hana heildstæðari og raunsærri. Ekki síst er nauðsynlegt að prófa skoðanir sínar stöðugt og leita að veikleikum í þeim. Sýna auðmýkt gagnavart eigin þekkingu og vera opinn fyrir sjónarmiðum annarra.


Á ýmsan hátt ýta margir fjölmiðlar undir þessa einföldu heimsmynd og þröngu sýn á málefnin. Samfélagið er oft matað af einhliða flutningi frétta, auk þess sem tegund frétta er iðulega með fremur neikvæða slagsíðu. Slagsíðu í átt að því sem miður fer – átök og vandamál – á kostnað jákvæðra og fjölbreyttari frétta. Frétta sem hjálpa einstaklingum að fá víðtæka og fjölbreytta sýn á umhverfi sitt og samfélag. Í stað víðsýni og þekkingu á heildamyndinni, fá margir brenglaða mynd af veruleikanum og draga því rangar ályktanir. Og allir sjá hversu hættulegt slík sýn og afstaða getur orðið ef stjórnandi á í hlut, þar sem mikið getur verið í húfi.


Og það beinir sjónum að sérfræðingum og hlutverki þeirra í umræðunni. Flestir kannast við orðatiltækið um að ef barn er látið hafa hamar, þá líti allt út eins og nagli. Tengingin við sérfræðingana er augljós. Tilhneiging margra sérfræðinga er sú að beita sinni sérfræðiþekkingu til að útskýra og leysa málin. Mæta með „sinn hamar“, en gæta þess ekki að eðli stöðunnar getur verið margsnúið og ekki gefið að tiltekin sérfræðiþekking leysi eða skýri kjarna málsins. Sem dæmi má nefna að fyrirtæki fer til sérfræðings í almannatengslum sem kemur með hugmyndir að auknum sýnileika í fjölmiðlum, en þörfin er í raun sú að fyrirtækið þarf fyrst að endurskoða sína stefnu og framtíðarsýn. Eða að fyriræki kemur til sérfræðings í stefnumótun, en fyrirtækið er í raun með skynsamlega stefnu, en þarf að tengja betur við markaðinn og auka sýnileika með aðgerðum í almannatengslum. En tilhneigingin hjá báðum sérfræðingunum er að nálgast málið út frá sinni þekkingu; með sinn hamar, en látið er hjá líða að skoða heildarmyndina.

Vil taka fram að þessi pistill er að hluta til innblásinn af lestri Factfulness, bókar sænska læknisins og hugsuðarins Hans Rosling. Mögnuð bók sem ætti að vera skyldulesning allra þeirra sem vilja skilja heiminn og tileinka sér skynsamlega nálgun við að skoða mál og taka ákvarðanir.

hafa samband