Hvað er góður stjórnandi? Seinni hluti…

Í pistli fyrir nokkrum dögum gerði ég að umfjöllunarefni það sem ég tel að einkenni öflugan stjórnanda. Byggði það á lestri bóka, reynslusögum þekktra stjórnenda, og eigin reynslu af fjölmörgum stjórnendum undanfarin ár. Hér á eftir gefur að líta seinni hluta þessa gátlista sem mig langaði til að deila með lesendum.

Jákvæðni og bjartsýni; sjálfstraust og ákveðni eru systur jákvæðni og bjartsýni og ómetanlegir eiginleikar í fari sérhvers einstaklings. Þessi þættir stuðla að því að tekist er á við erfiðleika og vandamál á uppbyggilegan hátt og leitað eftir því góða í mönnum og málefnum. Þetta er því bara spurning um rétt hugafar.

Metnaður og áhugi; það býr metnaður og áhugi í öllum, það gengur bara misvel að finna hann, leyfa honum að lifna og dafna, næra sálina, okkar nánustu og samstarfsfélaga. Metnaður og áhugi er mikilvægur hjá stjórnendum, en eins og áður geta tveir einstaklingar haft mismunandi skoðun á því hvernig þeir þættir koma fram í leik og starfi. Þetta er hins vegar ein af þessum frumforsendum sem nauðsynlegar eru hjá stjórnendum, ekki síst vegna þess samkeppnisumhverfis sem þeir lifa og hrærast í.

Húmor; ég hef fyrir margt löngu komist á þá skoðun að húmor sé eiginleiki sem getur skilið á milli feigs og ófeigs í stjórnun og forystu. Skopskyn er vanmetinn eiginleiki hjá stjórnendum og í raun almennt í samskiptum og starfsmannamálum. Kímni getur breytt andrúmslofti í einni svipan og hrakið á brott spennu, kvíða, tortryggni og fýlu. Bros, léttleiki og gamansemi, sýnir oft mannlega hlið einstaklingsins, þessa sem tengist hlýju og umhyggju. Kímni og tilsvör sem gefa samskiptum manneskjulega nálægð. Allt verður léttara og auðveldara. Grín og gleði elur af sér góðan starfsanda og smitar út í þjónustu við viðskiptavini.

Sjálfstæði; sjálfstraust þarf ekki endilega að þýða sjálfstæði þótt það geri það oftast. Stjórnandi getur haft sjálfstraust í því sem hann er að gera, en ekki sjálfstæði til að fara ótroðnar slóðir eða ganga gegn viðtekinni skoðun hópsins. Á sjálfstraustið reynir í samskiptum við aðra, en sjálfstæðið reynir oft mest á þegar einstaklingur er með sjálfum sér. Sjálfstæði er að vera trúr sjálfum sér og hafa þor til að fylgja sinni sannfæringu. Hlusta með opnum huga á það sem aðrir hafa að segja, leggja mat á það, og fara síðan þá leið sem eigin dómgreind og hjartað segir. Hér togast á pólarnir sjálfstæði og ósjálfstæði, róttækni og íhaldssemi.

Tekur ákvörðun; stjórnandi stendur reglubundið frammi fyrir því að taka ákvörðun. Í því felst kjarni stjórnunar; að taka ákvörðun. Undanfari ákvarðana er í raun einfaldur. Ákvarðanir eru teknar til að vera á undan eða bregðast við breytingum í ytra eða innra umhverfi sem geta haft jákvæðar eða neikvæðar afleiðingar. Þetta snertir bæði stóru málin eins og stefnumótun, fjárfestingar og mannaráðningar, sem og öll þau minni sem glímt er reglubundið við og eru nær í tíma. Þessar breytingar eru að verða örari og áhrifameiri og er þörfin fyrir skynsamlega ákvarðanatöku þar með sífellt meiri.

Tilfinningar, innsæi, staðreyndir og rök; ákvarðanir á að taka út frá staðreyndum og tilfinningum. Staðreyndum í formi talna eða upplýsinga af einhverju tagi. Við stjórnanda blasa hlutlægar staðreyndir á blaði sem hann og hans fólk rýnir í og dregur ályktanir út frá. Enda upplýsingar frumforsenda þess að geta unnið verkefni af fagmennsku. Því kemur ekki á óvart að ákvörðun verður að byggjast á staðreyndum, upplýsingum. Þótt upplýsingar séu ein meginforsenda þess að taka skynsamlegar ákvarðanir getur umfang þeirra þvælst fyrir. Það er því býsna mismunandi hversu mikið magn upplýsinga hver stjórnandi vill að liggi fyrir áður en hann telur sig í stakk búinn að taka ákvörðun. Þarna spilar margt inní. Sumir telja sig ekki þurfa nema nokkur aðalatriði en aðrir vilja bora sig langt og leita vítt og djúpt að gögnum.


Vegur og metur tækifæri og áhættu; misjafnt eftir eðli og stærð ákvörðunar en kjarni málsins. Hin meginforsenda skynsamlegra ákvarðana snýr að tilfinningum og innsæi. „Skynsamleg“ hlutlæg rök og tilfinningar þurfa að koma saman þegar ákvörðun er tekin. Hvernig stjórnandi ert þú?

hafa samband