Straumar

Á hverjum tíma eru að verki seigfljótandi straumar í samfélaginu sem hafa áhrif á gildismat okkar sem einstaklinga. Þetta eru ekki tískubólur sem koma og fara, heldur þróun sem tengist viðhorfum einstaklinga og birtist í vonum, þrám og löngunum til að upplifa hluti á annan hátt en áður. Áherslur og þarfir einstaklinga breytast og koma fram í kröfum til stofnana, fyrirtækja, og þar með stjórnenda, sem taka þarf tillit til. Meta þarf þessa krafta og það sem þeir þýða út frá strategískum áherslum, og í framhaldinu hvernig starfsemin er skipulögð. Um áramót, þegar stjórnendur fyrirtækja huga gjarnan að stefnu og framtíðarsýn, er áhugavert að skoða hvað er þarna að gerast og hvernig þróunin gæti haft áhrif á stöðu til framtíðar. Þessir straumar (e. trends) eru margvíslegir og oft flokkaðir eftir þeim sérstöku þáttum sem einkenna þá. Fyrirtækið Trend Watching hefur sérhæft sig í að kortleggja þessa strauma og hefur í þeim tilgangi nokkurskonar „fálmara“ út um allan heim þ.e.a.s. fólk sem fylgist með viðhorfum og hegðun í samfélaginu. Í þessum pistli og tveimur næstu, mun ég draga fram nokkra af þeim straumum sem kallaðir hafa verið alþjóðlegir (e. global) þ.e. munu hafa áhrif hvert sem litið er. Engir tveir eru eins; Í auknum mæli vilja einstaklingar láta líta á sig sem einstaka, en ekki sem númer í röð eða kennitölu á skrá. Hvert og eitt okkar hefur sína afstöðu til hlutanna, hefur sínar þarfir og óskir, og vill að þeim sé mætt á þann hátt. Ekki vera andlitslaus hluti af stórri heild eða einsleitum hópi, heldur einstök, hvert fyrir sig. Út frá markaðsfræðunum er hægt að segja að einstaklingurinn sjálfur sé minnsti markhópurinn sem horfa þarf til. Gagnvart fyrirtækjum og stofnum sendir þessi straumur skýr skilaboð um að styrkja greiningu gagna, stjórnun viðskiptasambanda, og þjálfun starfsmanna í mannlegum samskiptum. Aukinn gæðatími; Einstaklingar hafa vaxandi óþol fyrir því að láta tíma fara til spillis. Það nennir enginn að hanga í símanum af því að hann eða hún „eru númer 12 í röðinni“. Biðraðir eru eitur í augum allra enda viljum við ekki sóa tíma sem við gætum ella notað í að vera til og njóta ferðalagsins. Viðhorf í samfélaginu um mikilvægi núvitundar tengist þessum straumi. Umburðarlindi hefur minnkað undanfarna áratugi og krafan um að fá virði út úr tímanum sem slíkum, hefur vaxið. Þetta þýðir að stjórnendur þurfa að einfalda ferla og flækjustig sem snýr að viðskiptavinum til að upplifun hvers augnabliks í samskiptum skapi virði. Um leið þarf að styrkja þjónustukerfi og hugsa samskipti utan frá og inn, þ.e. frá viðskiptavinum. Betri þjónusta; Það kann að hljóma eins og gömul tugga að nefna að aukin krafa um góða þjónustu er sterkur straumur í viðhorfum fólks. En það er engu að síður raunin. Hér er ekki átt við vélræna þjónustu sem sleppur þolanlega frá augnablikinu, heldur þjónustu sem einkennist af raunverulegri umhyggju og skilningi þess að engir tveir eru eins. Einlægur áhugi á að þjóna og hjálpa. En hér er líka átt við þá ósk einstaklinga að fá þjónustu almennt á sínum forsendum, ekki síst með stafrænum leiðum. Að aðgengi og upplýsingar skapi betri upplifun og virði í þjónustunni. Stjórnendur þurfa því í auknum mæli að skerpa á þremur lykilþáttum; þjónustustefnu, þjónustukerfi og þjónustu starfsfólks. Notkun tækninnar; kemur ekki á óvart. Líklega er ekki langt að bíða þangað til það verður óásættanleg staða í fyrirtækjum og stofnunum að nýta ekki þá möguleika sem tæknin felur í sér. Þau sem sitja eftir hafa tæplega aðgöngumiða að leiknum þ.e. þeim markaði eða þjónustu sem þau vilja sinna. Möguleikarnir eru margir og útgangspunkturinn er að tæknin þjóni einstaklingnum, en hverfist ekki um sjálfa sig. Sé hluti af því ferli og samskiptum sem eiga sér staða í ferðalagi viðskiptavina. Stafræna byltingin er hér á ferðinni með vélmennum, gervigreind og öppum, svo eitthvað sé nefnt. Um tíma geta fyrirtæki í samkeppni náð forskoti með nýtingu tækninnar með því að horfa heildrænt yfir starfsemina, en gleyma jafnframt ekki að strategían þarf að ráða för. Ekki tæknin sem slík
Framhald síðar…

hafa samband