Í gegnum tíðina hef ég velt fyrir mér hvað það er sem einkennir öflugan stjórnanda. Á þeim rúmlega tuttugu árum sem ég hef verið ráðgjafi hef ég bæði lesið töluvert um þessi mál, hlustað á fræðimenn og stjórnendur fjalla um viðfangsefnið, og síðast en ekki síst, séð fjölmörg dæmi um góða og slaka stjórnun. Og smám saman hefur nokkurskonar gátlisti orðið til sem byggir á þessari reynslu. Eflaust er margt þarna sem kemur ekki á óvart, og vissulega eru einstakir stjórnendur innréttaðir þannig að þeir tikka ekki í öll boxin, en til gamans langar mig til að deila þessu með lesendum. Í tveimur hlutum.
Leiðtogi og fyrirmynd; stjórnandi þarf að vera leiðtogi síns fólks. Einstaklingur sem er fyrst og fremst fyrirmynd í góðum siðum, og hefur traust og virðingu starfsmanna. Hér reynir á lipurð, sannfæringarkraft, og persónutöfra.
Félagi og hluti af teyminu; starfsemi fyrirtækja kallar á að fólk vinni saman að settum markmiðum. Lykilhlutverk stjórnanda er því að virkja aflið sem býr í hópnum og samtakamætti hans. Það gerist aðeins ef stjórnandinn skapar andrúmsloft félagsskapar og teymishugsunar. Stjórnandi sem leggur sig fram um að þekkja sitt fólk, finnur fljótt mun á persónuleika starfsmanna. Hann uppgötvar að oft þarf ólíkar leiðir við mismunandi fólk.
Ákveðinn; stjórnandi þarf að vera það; stjórnandi. Hann þarf að sýna ákveðni og festu í starfi og samskiptum við sitt fólk. Fólk ber ekki virðingu fyrir óákveðnum og flöktandi stjórnendum. Allir þurfa að finna fyrir tilteknu aðhaldi og að stjórnandi hafi stjórn á hlutunum.
Sanngjarn; með ákveðni þarf að fylgja sanngirni. Ef eitthvað eitt fer illa í sálina þá er það ósanngirni og getur tekið langan tíma að bæta úr því. Ef það þá tekst. Þess vegna er þetta snar þáttur í starfi stjórnenda og ákveðni og festu verður að fylgja næmur skilningur á því hvað er sanngjarnt hverju sinni.
Hlustar, styður og hvetur; eitt allra mikilvægasta hlutverk stjórnanda er að hlusta, styðja og hvetja. Í fyrsta lagi þarf stjórnandi að kunna að hlusta. Hann þarf að læra að þegja á réttum tíma, skilja það sem hann heyrir og álykta líka út frá því sem hann heyrir ekki. Í öðru lagi þarf stjórnandi að standa með sínu fólki t.d. að styðja einstök verkefni og frumkvæði. Í þriðja lagi hvetur stjórnandinn fólk til dáða. Á hópfundum og maður á mann, er stjórnandi meðvitaður um að hvetja sitt lið og skapa keppnisanda í hópnum. En gætir þó alltaf að hverjum og einum í liðinu og miðar sinn tón og taktík við stöðu og persónu hvers og eins.
Traustur; markmið hvers og eins, ekki síst stjórnanda, á að vera að byggja upp ímynd og eigið orðspor þannig að honum sé treyst. Traust er forsenda allra uppbyggilegra samskipta.
Frumkvæði; forysta krefst frumkvæðis. Stjórnandi þarf að búa yfir tiltekinni ákefð og frumkvæði. Þessir eiginleikar drífa fólk áfram og leiða til þess að menn sýna dirfsku og þor, óhræddir við að feta nýjar slóðir, án þess að missa sjónar á því sem er til staðar hverju sinni.
Hagsýni; hagsýni verður að vera eitt af einkennum góðs stjórnanda. Meðvitund um kostnað og gott skynbragð á rekstur og fjármál skipta jú öllu máli til að missa ekki sjónar af stöðunni hverju sinni.
Skapandi hugsun; skapandi hugsun felst í hæfileikanum til að sjá nýjar hliðar á umhverfinu. Geta hafið sig upp yfir stöðuna hverju sinni og sett spurningarmerki við stefnu, siði, vinnubrögð, gildi … ekki síst ef spurningar beinast að stjórnandanum sjálfum og nánasta umhverfi. Hlutverk stjórnandans er því bæði að rækta þennan sköpunarkraft með sjálfum sér og hvetja sitt fólk til dáða.
Sjálfstraust; umhverfi atvinnulífsins í dag, harkan á markaðnum, aukin samkeppni og meiri kröfur um arðsemi og árangur, þýða að sjálfstraust er ein forsenda þess að vera farsæll stjórnandi. Samskipti þurfa að mótast af sjálfstrausti, trú á það sem talað er fyrir og ákveðni við að koma sjónarmiðum á framfæri og ná settum markmiðum. Fyrirtækjalíf í dag er bara þannig. Þessir þættir þurfa að vera til staðar. Trú á sjálfan sig.
Í næsta pistli er seinni hluti þess sem ég tel einkenna góðan stjórnanda.