Fleiri straumar…

Í pistli mínum fyrir nokkrum vikum gerði ég að umtalsefni þá fjölbreyttu strauma sem setja mark sitt á samfélagið á hverjum tíma og hafa þannig áhrif á hugsun og hegðun okkar sem einstaklinga og neytenda. Tengdi ég þessa seigfljótandi strauma (e. trends) við áskoranir í stjórnun fyrirtækja, opinberra stofnana, sveitarfélaga, og félagasamtaka á þann hátt að stjórnendur yrðu að velta fyrir sér líklegri þróun þessara strauma og meta hvort og þá hvernig þeir hefðu áhrif á stefnuáherslur og framtíðarsýn. Í þessum pistli kem ég inn á fleiri af þessum alþjóðlegu (e. global) straumum.


Hagnýtar upplýsingar; í upplýsingasamfélagi nútímans gætir oft þeirrar þversagnar að annars vegar finnst okkur við fá of mikið af flóknum upplýsingum, og hins vegar að við fáum ekki nægjanlega skýrar og hagnýtar upplýsingar. Og með stóraukinni notkun stafrænna leiða í samskiptum eykst magn upplýsinga sem fyrirtæki sem og neytendur hafa aðgang að. Þetta aukna flækjustig kallar á að stjórnendur hafi fyrst og fremst skýra sýn á sína markhópa og þær þarfir sem einkenna þá, með það í huga að sníða notkun upplýsinga að þeim þörfum. Hver og einn viðskiptavinur vill upplýsingar sem eru hagnýtar, leiði til mögulegra viðbragða, og feli þannig í sér einhvern ávinning. Markviss greining og notkun gagna er hér lykilatriði og þarf að öðlast áherslu í stjórnun.

Heima er best; lengi vel voru stóru og kröftugu fyrirtækin markaðsráðandi í samkeppni enda höfðu þau eðlilega meiri slagkraft en þau minni. Og hjörðin fylgdi oft þeim stóru og sterku í þeirri vissu að fjöldinn hefði „rétt fyrir sér“. Undanfarin ár hefur þetta verið að breytast. Neytendur hafa horft sér nær og athyglin og áherslan hefur verið að færast yfir á framleiðendur vöru og þjónustu sem byggt hafa tilveru sína á tengjast og sinna fyrst og fremst nærumhverfi sínu. Nefnt local love á enskunni. Fyrir stjórnendur þýðir þessi þróun að mikilvægt er að skoða á hvern hátt höfða á sem mest til nærumhverfisins og skapa þá tilfinningu að það sé hugsað vel um þá sem þar eru.

Ábyrgð gagnvart samfélaginu; þessi straumur kemur ekki á óvart enda umræðan um mikilvægi samfélagsábyrgðar vaxið mjög undanfarin ár. Birtingarmyndin er fjölbreytt og snertir m.a. hvernig fyrirtæki láta gott af sér leiða í samfélaginu, en ekki síður snýr þessi áhersla að margvíslegum þáttum eins og umhverfismálum og jafnréttismálum. Aukin krafa er í samfélaginu að við „séum í þessu saman“, ekki bara í heimsfaraldri, heldur einnig á þann hátt að sérhvert fyrirtæki leggi sitt að mörkum til byggja upp gott samfélags. Hér þurfa stjórnendur að marka skýra stefnu í öllum þáttum samfélagsábyrgðar sem síðan er fylgt eftir á einbeittan og trúverðugan hátt. Að öllum líkindum mun staða og ímynd fyrirtækja á þessu sviði hafa síaukin áhrif á kauphegðun neytenda á þann hátt að þeir velji vörur og þjónustu hjá þeim fyrirtækjum sem standa sig vel á þessu sviði.

Persónuleg vörumerki; að sumu leyti talar þessi straumur við „heima er best“ hér að ofan. Hvatinn á bak við þennan straum er sú löngun að skipta við fyrirtæki sem sýna umhyggju fyrir einstaklingum og leggja sig fram um að vera persónuleg. Aðgreini sig frá öðrum á markaði sem skapar þeim sérstöðu og persónulega tengingu við viðskiptavini. Út frá sjónarhóli stjórnenda má líta á þessa þróun sem hvatningu til að brýna strategíuna enn frekar, og þá fyrst og síðast hvað það er sem gerir vörumerkið sérstakt. Að persónuleiki vörumerkis standi fyrir skýran ávinning fyrir þá neytendur sem áherslan beinist að.

Markalínur dofna; hér hefur stafræna þróunin haft mikil áhrif. Margvísleg smáforrit (öpp) hafa tekið út alls konar milliliði á milli fyrirtækja sem framleiða vörur og þjónustu, og neytenda sem kaupa. Neytendur hafa í auknum mæli tekið þátt í ferlinu og má þar nefna heimabanka bankann sem skýrasta dæmið. Þar stíga viðskiptavinir inn í ferlið og „framleiða“ þjónustuna í stað bankans, um leið og þjónustan er betri þar sem hún er veitt á forsendum viðskiptavina. Deilihagkerfið er önnur birtingarmynd þar sem hefðbundnir framleiðendur þjónustu eins og leigubílastöðvar hafa mætt nýrri samkeppni. Fyrir stjórnendur þýðir þessi þróun að endurhugsa þarf hvernig framleiðsla, markaðssetning, sala og neysla er skipulögð.

hafa samband